Innlent

60 prósenta söluaukning á jólabjór

Komu jólabjórsins var fagnað á öldurhúsum í ár eins og stundum áður.
Komu jólabjórsins var fagnað á öldurhúsum í ár eins og stundum áður.

Um 160 þúsund lítrar eru seldir af jólabjór í ár sem er um 60 prósenta söluaukning miðað við sama tíma í fyrra. Nokkrar tegundir eru uppseldar hjá birgjum en engin enn sem komið er í Vínbúðunum að því er Örn Stefánsson innkaupastjóri segir. Hann segir sölu á venjulegum bjór hafa dregist saman á sama tíma, sem er nýtt, áður hafi jólabjórinn verið sem hrein viðbót í bjórsölu.

Vinsælustu tegundirnar eru Tuborg jólabjór í flösku, Egils maltbjór og stórar dósir af Víking jólabjór, þær eru uppseldar hjá birgjum. Einnig er lítið eftir af Kalda og Víking í gleri að sögn Arnar.

Framboðið á jólabjór hefur aukist jafnt og þétt og nú má fá sextán tegundir af jólabjór í Ríkinu. Verð á litlum flöskum og dósum er frá 239 krónum og upp í 790 krónur. Sá dýrasti er belgískur og 10 prósent að styrk. Verð á stórum bjór er á bilinu frá 289 krónum og upp í 549 krónur, flestir kosta þó um 300 krónurnar.

Sölutímabil jólabjórs lýkur 6. janúar og því gæta framleiðendur þess að gera ekki of mikið af bjórnum, því þeir sitja uppi með það sem eftir er eftir að sölu lýkur.

Töluverðar verðhækkanir hafa orðið á áfengi undanfarið ár, nær 30 prósent svo dæmi séu tekin frá Hagstofunni á hálfs lítra dós af Becks frá nóvember 2008 til nóvember 2009. Örn bendir á að bjórsala hafi og dregist saman í nóvember í ár og í fyrra en það er í fyrsta sinn sem það gerist. Áfengisgjald hækkaði 21. desember í fyrra og síðan þá hefur Tuborg í dós til dæmis hækkað um 14 prósent, Kaldi um rúm níu prósent og stór dós af Egils um þrjú prósent. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×