Innlent

Svandís með stóra kúlu: Þarf að fá mér hjálm

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
„Ég er bara með stóra kúlu á höfðinu," segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra en hún varð fyrir því óláni í morgun að detta af hjólinu sínu þar sem hún var á leið í Umhverfisráðuneytið. Svandís var flutt með sjúkrabíl á Landspítalann til aðhlynningar. Hún reyndist ekki hafa fengið heilahristing.

„Ég tók of skarpt í handbremsuna og steyptist á hausinn," segir Svandís sem var að beygja af Lindargötu niður í Skuggasundið til fundar við manneskju úti í umhverfisráðuneytinu. „Ég fór beint af þinginu því ég átti von á manneskju í viðtal og ætlaði svo að vera mætt í óundirbúnar fyrirspurnir eftir hádegi," segir Svandís sem skiljanlega tekur sér frí að minnsta kosti það sem eftir lifir dags. „Ætli ég sé ekki löglega afsökuð núna."

Svandís lenti á höfðinu en aðspurð hvort hún hafi verið með hjálm svarar hún: „Nei þar liggur nú hundurinn grafinn. Ég var ekki með hjálm," segir Svandís sem á ekki hjólahjálm. Hún segir þetta þó vera víti til varnaðar. „Ég þarf bara að fá mér hjálm. Það er ekki spurning."

Svandís vonast til þess að vera ekki lengi frá vinnu vegna óhappsins. Hún segist þó ekkert smeyk við að setjast á hjólið aftur. „Nei nei, það þýðir ekkert. Þetta er besti ferðamátinn."

Þegar fréttastofa náði tali af Svandísi var hún á leið heim til þess að fylgjast með utandagskrárumræðum í sjónvarpinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×