Innlent

Björguðu átta manns eftir ótrúlega hrakningar

Valur Grettisson skrifar
Óskar Björn Óskarsson, til vinstri, ásamt vinnufélaga sínum. Óskar bjargaði átta manns, þar af fim börnum úr hrikalegri neyð í Danmörku.
Óskar Björn Óskarsson, til vinstri, ásamt vinnufélaga sínum. Óskar bjargaði átta manns, þar af fim börnum úr hrikalegri neyð í Danmörku.

„Þetta voru þrír fullorðnir einstaklingar og svo fimm börn," segir Óskar Björn Óskarsson sem sótti átta manns til Reesnæs Strandvej í Danmörku en þau voru þar aðframkominn eftir að hafa verið svikinn um vinnu og pening. Um íslenska fjölskyldu er að ræða en með henni var vinur þeirra. Þau voru á þrítugsaldri en börnin frá tveggja ára aldri til ellefu ára.

Seldu allt í von um betra líf

Að sögn Óskar ákvað fólkið að selja allt sem það átti hér á landi fyrir um mánuði síðan. Ástæðan var auglýsing sem þau sáu í Fréttablaðinu um að vinnu væri að hafa í Reesnæs Strandvej sem er um hundrað og fimmtíu kílómetrum frá Kaupmannahöfn. Fólkið hafði misst vinnu sína hér á landi vegna kreppunnar, og hugðist leita að nýju og betra lífi í Danmörku. Þess vegna seldu þau alla sína búslóð og fluttu í góðri trú til Danmerkur.

Áttahundruð þúsund í tryggingu og leigu

Þegar þangað var komið tók á móti þeim maður sem lét þau borga sér þrjú þúsund krónur danskar fyrir að flytja þau frá flugvellinum í fyrirheitna bæinn. Þar þurftu þau svo að reiða fram fimmtíu þúsund danskar krónur fyrir tryggingu í íbúð og leigu. Það gera rúmlega áttahundruð þúsund krónur.

„Maðurinn fór með þau í húsnæði sem þau áttu að vera í, síðan voru þau flutt í annað húsnæði fjarri allri byggð," segir Óskar sem ræddi við fjölskylduföðurinn sem lýsti fyrir honum sögu sinni. Þegar þau voru síðan kominn í það húsnæði, hvarf maðurinn með peninginn og hefur ekki sést síðan.

Matvælaaðstoð til fjölskyldunnar

„Þau voru allslaus, áttu ekki neitt til þess að kaupa sér mat né voru þau á bíl til þess að fara fjögurra kílómetra leið í næstu búð," segir Óskar en það var sendiráð Íslands í Danmörku sem hafi samband við Óskar. Hann var beðinn um að fara og sækja fólkið, en degi áður hafði sendiráðið reynt að koma mat til fjölskyldunnar sem var aðframkominn án penings í mánuð í Danmörku.

Illa stemmd eftir hrakningar

Úr verður að Óskar fer ásamt Þóri Jökli Þorsteinssyni, sendiráðspresti og sækja fólkið. Spurður hvernig þau báru sig þegar hann kom þangað, svarar Óskar að þetta hafi verið hraust og viljasterk fjölskylda og þau hafi ekkert kveinkað sér. Engu að síður voru þau búinn að vera föst í mánuð út í sveitinni, og allar bjargri bannaðar að hans sögn.

„Þau voru náttúrulega illa stemmd," segir Óskar þegar hann lýsir andlegu fasi fólksins. Hann segir að það hafi verið átakanlegt að sjá börnin þarna, en þau báru sig nú samt mjög vel. Óskar segist frekar vera reiður að einstaklingar skuli notfæra sér neyð fólks, og von þeirra um nýtt og betra líf fjarri kreppunni.

Yfirvöld borguðu flugið

„Það er bara ljótt að gera svonalagað," segir Óskar sem vill koma á framfæri til fólks að fara varlega ætli það sér að flytja erlendis. Það geti verið varasamt að stökkva á eitthvað tilboð, betra sé að leita ráða hjá þeim sem til þekkja í viðkomandi landi.

Fjölskyldan flaug frá Kaupmannahöfn um hádegisbilið í dag en það var félagsmálaráðuneytið sem borgaði farið fyrir þau heim að sögn Óskars - slík var neyðin.

Óskar gaf vinnu sína við að flytja búslóð fólksins til Kaupmannahafnar, segir að minna hafi það ekki mátt vera. Aftur á móti hafi sendiráðið borgað honum hluta af ferðinni.

Biður fólk um að gæta sín

Ástæðan fyrir því að haft var samband við Óskar er sú að hann hefur starfað við smíðavinnu og flutningar í Kaupmannahöfn. Hann aðstoðar fólk við að flytja til Danmerkur, hjálpar þeim að flytja og dyttar að íbúðum ef þörf þykir. Hann varar fólk eindregið við að flytja blint út. Þá bendir hann á að hafa samband við sendiráðið eða sig sjálfan í oskarbjorn@gmail.com. Hann sé öllum hnútum kunnugur og hafi slík sambönd að hann geti þó sannreynt ef um einhverskonar svik sé að ræða eins og í þessu tilfelli.

Fjölskyldan lenti nú síðdegis á Íslandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×