Innlent

Fórnarlamb hnífsstungu: Of þungur dómur

Andri Ólafsson skrifar

Karlmaður á þrítugsaldri, var í dag dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að stinga hálfbróður sinn í bakið. Fórnarlambið segir dóminn yfir litla bróður sínum allt of þungan.

Árásin var gerð í nóvember síðastliðnum. Árásarmaðurinn, Ingi Páll Eyjólfsson, hafði verið undir áhrifjum eiturlyfja í marga daga og það hafði valdið fjölskyldu hans miklum áhyggjun. Hálfbróðir hans var því kallaður til og fenginn til þess þess að ganga í málið og grípa í taumanna.

Bræðurnir mæltu sér mót við Hlemm þar sem þeir ætluðu að ræða saman. Af einhverjum ástæðum var Ingi Páll óttasleginn um að bróðir sinn ætlaði að taka í lurginn á sér og tók því stærðarinn eldhúshníf með á fund þeirra. Þegar þeir hittust tók Ingi Páll skyndilega upp hnífinn og stakk hálfbróðir sinn tvisvar sinnum. Einu sinni í bakið og einu sinni í upphandlegginn. Vegfarendur skárust í leikinn en Ingi Páll komst undan á flótta. Hann var svo handtekinn á Vatnsstíg tæpri klukkustund síðar.

Hálfbróðir Inga Páls segist vonast til þess að bróðir sinn áfrýji og að dómurinn verði lækkaður í Hæstarétti. Hann segir þá bræður hafa gert upp sín mál og gagnrýnir að ekki sé tekið tillit til þess í dómnum. Hann bendir einnig á dóm sem féll í kynferðisbortamáli í síðustu vikur þar sem maður fékk tveggja ára dóm fyrir að níðast á barnungri dóttir sinni. Hann segir afleiðingarnar af því broti mun alvarlegri en bróðir sinn fái meira en helmingi þyngri dóm.

Ingi Páll Eyjólfsson hefur þegar hafið afplánun á fimm ára fangelsisdómi sínum en hann hefur einn mánuð til að áfrýja til Hæstaréttar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×