Innlent

Hvalaskoðunarfyrirtækin vilja veiðimenn úr Faxaflóa

„Ef svo ótrúlega vill til að ráðamenn leyfi hrefnuveiðar þarf Reykjavíkurborg að standa við bakið á hvalaskoðunarfyrirtækjum við Reykjavíkurhöfn, að Faxaflóinn verði griðland þar sem veiðar verða ekki leyfðar," segja forsvarsmenn hvalaskoðunarfyrirtækjanna Eldingar og Hvalalífs í bréfi til Áslaugar Friðriksdóttur, formanns menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Þau Rannveig Grétarsdóttir, hjá Eldingu, og Hilmar Stefánsson, hjá Hvalalífi, segja að ef svo illa fari að af hvalveiðum verði hljóti að vera hægt að veiða á öðrum svæðum en í Faxaflóanum. Að stjórnvöld skuli íhuga hvalveiðar í óþökk helstu viðskiptalanda Íslendinga sé nógu mikil ógn. Í ljósi efnahagshrunsins í landinu megi Íslendingar varla við fleiri hryðjuverkastimplum og ekki veiti af að standa vörð um þau fyrirtæki í landinu sem þegar eru að afla gjaldeyristekna og skapa störf . Elding og Hvalalíf óska þess því að Reykjavíkurborg lýsi yfir eindregnum stuðningi við fyrirtækin.

Í bréfinu til formanns menningar- og ferðamálasviðs kemur fram að Hrefnum hafi fækkað mikið frá því að vísindaveiðar hófust árið 2003 en þá hafi þær verið taldar um 43.633. Samkvæmt nýjustu talningum Hafrannsóknarstofnunar séu þær einungis 10.680. Vísbendingar séu um að þær séu jafnvel enn færri, eða nær 6.000. Vísindalegar rannsóknir sem Elding hafi látið vinna síðastliðin tvö ár bendi til að ekki séu ýkja mörg dýr sem komi hér við heldur sé verið að skoða sömu dýrin ár eftir ár. Starfsfólk áætli að fjöldi hrefna geti verið frá nokkrum dýrum upp í hundrað dýr en misjafnt sé hvar í Faxaflóa þau haldi sig. Hvalaskoðunarfyrirtækin hafi þurft að þola það að hvalveiðimenn séu á veiðum á sömu slóðum og verið sé að fara með ferðamenn í hvalaskoðun. Þannig hafi loforð um að veiðarnar færu fram á öðrum svæðum ítrekað verið svikin.

Forsvarsmenn hvalaskoðunarfyrirtækjanna segja að áform um stórfelldar veiðar, með útgefnum kvóta á 100 hrefnur á ári næstu fimm árin, geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir gæði hvalaskoðunarferða. Rekstrargrundvöllur Hvalaskoðunarfyrirtækjanna sé þar með í hættu eftir áralangt starf í uppbyggingu í greininni. Tugmilljóna króna markaðssetning á hverju ári frá upphafi hafi þar með verið kastað á glæ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×