Erlent

Segir efnahagshruni afstýrt

Barack Obama lauk Ítalíuferðinni með heimsókn til páfa.fréttablaðið/AP
Barack Obama lauk Ítalíuferðinni með heimsókn til páfa.fréttablaðið/AP

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði við lok G8-fundarins á Ítalíu í gær að líklega hefði tekist að afstýra efnahagshruni í heiminum, sem hefði haft skelfilegar afleiðingar. Enn væri þó langt í varanlegan bata.

„Kæruleysi fárra kynti undir kreppu sem hefur farið um allan heiminn,“ sagði Obama og hvatti leiðtoga heims til að standa sameinaðir að björgunaraðgerðum, sem fela bæði í sér strangar reglur um fjármál og auknar fjárveitingar til að koma efnahagslífinu af stað.

Strax að loknum G8-fundinum hélt Obama á fund Benedikts XVI. páfa, en í dag ætlar hann að skreppa til Afríku, nánar tiltekið til Gana þar sem hann skoðar kastalann á Höfðaströnd.

Heimsóknin hefur táknrænt gildi fyrir Obama, því í þessum kastala höfðu Bretar höfuð­stöðvar þrælaverslunar sinnar fyrr á öldum.

Obama hefur haft í nógu að snúast í vikunni, allt frá því hann hélt til Moskvu á mánudag að hitta bæði Dmitrí Medvedev forseta og Vladimír Pútín forsætisráðherra.

Á leiðtogafundinum í L‘Aquila á Ítalíu í gær samþykktu G8-ríkin meðal annars að veita tuttugu milljörðum Bandaríkjadala til stuðnings bændum í fátækum ríkjum, svo þeir gætu aukið framleiðslu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×