Innlent

Fyrsta aflanum landað í Bakkafjöruhöfn

Höfnin í Bakkafjöru hefur tekið á sig heildstæða mynd.
Höfnin í Bakkafjöru hefur tekið á sig heildstæða mynd. Mynd/ Gísli Óskarsson

Fyrsta aflanum í nýrri Bakkafjöruhöfn var landað í gær. Rúm sextíu ár eru liðin frá því að síðasta afla var landað á Landeyjarsandi. Aflinn, þrír þorskar, liggur nú í nætursalti.

„Já það var fyrsta afla landað í gær," segir Jón Einarsson, bóndi að Bakka í Landeyjum um fyrsta aflann sem landað hefur verið í hinni nýju Bakkafjöruhöfn. Það voru sonur Jóns, Grettir, og vinur hans Kristinn Sigurlaugsson sem lönduðu þremur þorskum sem þeir höfðu veitt á stöng. Þeir félagar veiddu einn karfa en slepptu honum.

Grettir og Kristinn sigldu út á Zodiac gúmmíbát en í sömu ferð brugðu þeir sér yfir til Vestmannaeyja. Rúm sextíu ár eru liðin frá því að afla var síðast landað á Landeyjarsandi en þá landaði Guðmundur Jónason frá Hólmahjáleigu þorski ásamt félögum sínum en róið var út á árabát í það skiptið.

„Þorskurinn liggur nú í nætursalti og verður étinn á morgun," segir Jón kampakátur með afla sonarins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×