Innlent

Íslenskir læknar greina svínaflensu símleiðis

Kristín María Birgisdóttir skrifar
Læknar eru sumir hverjir hættir að taka sýni vegna svínaflensunnar og greina sjúklinga á staðnum og jafnvel í gegnum síma. Tilfellum fer ört fjölgandi og hafa þrjátíu og fjórir nú smitast af flensunni hér á landi.

Flestir þeirra sem hafa smitast eru milli tvítugs og þrítugs. Sá yngsti er 4 ára og sá elsti 60 ára.

Búast má við mikilli fjölgun tilfella á næstu dögum og vikum. Nú þegar eru sumir læknar farnir að sjúkdómsgreina án þess að taka sýni.

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir að ekki hafi enn komið tilmæli um að hefja slík vinnubrögð en búast megi við að svo verði þegar fleiri fari að veikjast.

Haraldur segist ekki mæla með því að þetta sé gert á þessu stigi. Þó geti aðstæður sum staðar verið erfiðar. Eftir því sem fleiri veikjast verði hvorki geta né mannskapur til að rannsaka alla þá sem veikjast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×