Innlent

Segja mannslífum stefnt í hættu

Starfsmannafélag Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi mótmælir harðlega öllum hugmyndum um stórfellda sameiningu heilbrigðisstofnana, sem kynntar voru á fundi 7. janúar. Í tilkynningu frá félaginu segir að engin haldbær gögn hafi verið lögð fram sem sýni að um raunsparnað sé að ræða og engin fagleg rök hafi komið fram fyrir sameiningunni. Þjónusta við íbúana muni skerðast verulega og mannslífum sé stefnt í hættu.

„Ætlun ráðherra er að keyra einhliða niðurskurð og skerðingu þjónustu í gegn án raunverulegs samráðs við heimamenn. Aðeins eru gefnir fáeinir dagar fyrir vinnuhópa að starfa og því litlir möguleikar fyrir fagaðila í hinum dreifðu byggðum að koma með betri tillögur en flausturslegar hugmyndir ráðuneytisins," segir í tilkynningunni.

Félagið segir það öfugmæli hjá ráðherra að verið sé að auka öryggi og þjónustu við sjúklinga. Skipulagsbreytingarnar séu afturför, og auki ferðalög með sjúklinga um langan veg í misjafnri færð og veðrum. Þá bendir félagið á að heilbrigðisstofnunin á Blönduósi sé eina sjúkrastofnunin við þjóðveg 1 frá Reykjavík til Akureyrar og því sé öryggi vegfarenda skert með minni þjónustu þar.

Þá spyrja félagsmenn hvort það sé verið að bjarga hallarekstri á Akureyri með því að færa starfsemina þangað. Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi hafi verið vel rekin.

„Ekkert samráð hefur verið haft við heimamenn um þessi mál. Teljum við þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið allt frá því að fyrst var ákveðið að sameina stofnanirnar á Sauðárkróki og Blönduósi síðastliðið vor verulega ámælisverð og bera vott um lítilsvirðingu gagnvart starfsfólki Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi, sjúklingum og öðrum íbúum héraðsins. Við skorum á yfirvöld að endurskoða þessar tillögur að skipulagsbreytingum áður en lengra verður haldið," segir ennfremur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×