Erlent

Kirkjan hélt hlífiskildi yfir níðingum

Ljót saga Kross þessi var reistur í Dublin árið 1979 þegar Jóhannes Páll II. páfi kom þangað í heimsókn.nordicphotos/AFP
Ljót saga Kross þessi var reistur í Dublin árið 1979 þegar Jóhannes Páll II. páfi kom þangað í heimsókn.nordicphotos/AFP

Kaþólska kirkjan á Írlandi gætti þess áratugum saman að ekkert fréttist opinberlega af framferði presta sem níddust á börnum. Kirkjan kaus að gæta orðspors síns frekar en að styðja fórnarlömbin.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar sem undanfarin þrjú ár hefur grandskoðað leyniskjöl kirkjunnar um þessi mál. Rannsóknin nær til brota sem framin hafa verið í umdæmi kirkjunnar í höfuðborginni Dublin á árunum 1975-2004.

Fram kemur í skýrslunni að erkibiskupar kaþólsku kirkjunnar í Dublin hafi á þessu tímabili gætt þess að halda brotum prestanna leyndum fyrir lögreglunni til að koma í veg fyrir umtal, en þess í stað flutt þá í annað prestsdæmi.

Ríkisstjórn Írlands baðst í gær afsökunar á að ríkið hefði ekki dregið yfirvöld kaþólsku kirkjunnar til ábyrgðar.

Fulltrúar fórnarlamba kirkjunnar sögðust fagna rannsókninni, en tóku þó fram að bæði kirkjan og stjórnvöld á Írlandi ættu margt eftir ógert til að bæta fyrir misgjörðir af þessu tagi.

Á þessu ári hafa þá komið út tvær efnismiklar skýrslur um þessi mál, báðar að frumkvæði stjórnvalda. Sú fyrri kom fyrir almennings sjónir í maí og eru þar dregnar saman á 2.500 blaðsíðum upplýsingar um brot kirkjunnar á Írlandi allt aftur á fjórða áratug síðustu aldar.

Skýrsluna, sem birt var almenningi í gær, fengu stjórnvöld í hendurnar í júlí. Hún er 720 blaðsíður og eru þar skoðuð mál 46 presta sem samtals höfðu fengið á sig 320 kærur. Þessir 46 voru valdir til skoðunar úr hópi 150 presta í umdæmi kirkjunnar í Dublin, sem allir höfðu verið sakaðir um að níðast á drengjum eða stúlkum allt frá árinu 1940.

Einungis ellefu prestanna 46 eru nafngreindir, þar sem þeir höfðu fengið dóm fyrir athæfi sitt. Höfundar skýrslunnar sögðust ekki í vafa um að þessir 46 prestar hefðu níðst á mun fleiri börnum en þeim 320 sem kærur höfðu borist vegna.

„Einn presturinn viðurkenndi að hafa níðst kynferðislega á meira en hundrað börnum, en annar viðurkenndi að hafa níðst á börnum á hálfs mánaðar fresti allan tímann meðan hann var í embætti, sem var í 25 ár,“ segir í skýrslunni.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×