Innlent

Undirrita samning um stuðning við langveik börn

Helga Arnardóttir skrifar
Áttatíu milljónum króna verður varið til stuðnings-og nærþjónustu við langveik börn og börn með ofvirkni og athyglisbrest af fjárlögum þessa árs. Samningur þess efnis verður undirritaður í dag.

Fjárhæðinni er skipt milli félags- og tryggingamálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. En þau gera samstarfssamninginn við Samband íslenskra sveitarfélaga sem er fyrir hönd sveitarfélaga í landinu. Þetta er tilraunaverkefni til þriggja ára og renna til þess áttatíu milljónir króna.

Sveitarfélög eða stofnanir á þeirra vegum geta því sótt um styrki vegna verkefna sem ætluð eru til þess að auka þjónustu við börn með athyglisbrest og ofvirkni og og þjónustu við langveik börn ásamt fjölskyldum þeirra. Sveitarfélög geta einnig sótt um styrki vegna verkefna sem unnin eru í samstarfi við einstaklinga eða félagasamtök. Gert er ráð fyrir að verkefnum sem hljóta styrk af fjárlögum ársins 2009 verði lokið fyrir 1. júlí 2011.

Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu segir að ítrekað hafi verið sýnt fram á að þessi börn hafi liðið fyrir óljósa og dreifða ábyrgð milli ráðuneyta og sveitarfélaga þegar komi að því að veita nauðsynlega þjónustu. Með samstarfssamningnum sé áhersla lögð á að tryggja þjónustu í samræmi við þarfir barnanna og fjölskyldna þeirra, óháð því hver beri ábyrgð á þjónustunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×