Erlent

Loksins eftirlit með hefðbundnum vopnum

Óli Tynes skrifar

Þótt hungursneyð og vesöld ríki víða um heim er það einhvernvegin svo að jafnvel hjá þeim þjóðum sem eru verst staddar er enginn skortur á vopnum.

Ótöldum milljörðum króna er varið til vopnakaupa þótt íbúarnir svelti. Margra ára viðræður hafa engu skilað þar sem vopnasöluþjóðir hafa ekki viljað sjá af þessum gróða sínum.

Nú um helgina var loks samþykktur sáttmáli um eftirlit með sölu og dreifingu hefðbundinna vopna. Undir hann falla ýmis smærri vopn til dæmis hríðskotarifflar og hansprengjur, auk auðvitað skriðdreka, herskipa og flugvéla.

Þessi vopn verður bannað að selja til ríkja þar sem talin er hætta á að þau verði notuð til alvarlegra mannréttindabrota eða stríðsglæpa.

Brian Wood sem stýrir vopnaeftirlitsdeild Amnesty International segir að sáttmálin geti bjargað hundruðum þúsunda mannslífa og varið lífskjör milljóna.

Öll helstu vopnasöluríki heims greiddu atkvæði með sáttmálanum, þar á meðal Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Þýskalandi.

Nítján ríki sátu hjá, en búist er við að þau taki þátt í átakinu. Aðeins Zimbabwe greiddi atkvæði gegn sáttmálanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×