Erlent

Stefnir Tinna fyrir kynþáttafordóma

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Af forsíðu bókarinnar Tinni í Kongó.
Af forsíðu bókarinnar Tinni í Kongó.

Þeir eru ófáir sem styttu sér stundir í æsku yfir teiknimyndasögunum um Tinna sem belgíski teiknarinn Georges Prosper Remi, betur þekktur undir höfundarnafninu Hergé, gerði ódauðlegan ásamt drykkfellda skipstjóranum Kolbeini, prófessor Vandráði og fleiri góðum mönnum.

Ekki eru Tinnabækurnar þó óumdeildar eins og sjá má af því að Bienvenu Mbutu Mondondo, endurskoðandi í Kongó í Mið-Afríku, hyggst nú stefna útgefanda bókanna, Moulinsart í Belgíu, fyrir frönskum dómstól. Málið höfðar Mondondo vegna þess að hann telur bókina Tinni í Kongó ýta undir kynþátta- og útlendingahatur auk nýlendustefnu en Kongó var belgísk nýlenda til 1960.

Einhverjir eru greinilega sammála þessu þar sem Bretar bönnuðu bókina árið 2007 með þeim rökum að þeldökkur þjónn Tinna í bókinni væri látinn líta út eins og api og tala eins og vanviti. Útgefandinn hefur ekkert tjáð sig um málið en bókin er frá fjórða áratug síðustu aldar. Vitað er að Hergé gerði breytingar á henni árið 1946 og tók þá út allt sem benti til þess að Kongó væri belgísk nýlenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×