Innlent

Hækka framfærslustyrki um tíu þúsund

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Bborgarstjóri kynnti í gær tillögur um auknar fjárveitingar til velferðarmála og sagði frá 40 milljóna króna átaki vegna atvinnuþróunar.
Fréttablaðið/Anton
Hanna Birna Kristjánsdóttir Bborgarstjóri kynnti í gær tillögur um auknar fjárveitingar til velferðarmála og sagði frá 40 milljóna króna átaki vegna atvinnuþróunar. Fréttablaðið/Anton

„Við verðum að ýta undir dugnaðinn og metnaðinn sem einkennir þjóðarsálina," sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri í gær við aðra umræðu um frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kynnti í gær ýmsar ráðstafanir undir yfirskriftinni „Forgangsraðað í þágu barna og velferðar." Í breytingartillögum við frumvarpið að fjárhagsáætluninni sé það gert án þess að hækka skatta eða gjöld á grunnþjónustu.

Meðal annars á að hækka hámarksupphæð fjárhagsaðstoðar úr 115.567 krónum á mánuði í 125.506 eða um tæpar tíu þúsund krónur. „Á þennan hátt vill Reykjavíkurborg tryggja betur grunnöryggisnetið fyrir þá sem þurfa á fjárhagslegum stuðningi að halda," segir í tilkynningu frá skrifstofu borgarstjóra. Þessi viðbót á að kosta 142 milljónir króna.

„Við verðum að fara sömu leið og heimili og fyrirtæki landsins, forgangsraða í þágu þess sem mestu skiptir, hagræða og spara," sagði Hanna Birna í borgarstjórn í gær. Hún sagði að reyndust útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar og húsaleigubóta, sem væru bundnir liðir, vera of lágt áætluð myndi borgarsjóður engu að síður borga það sem vantaði upp á. „Þannig á enginn að velkjast í vafa um að við munum standa við bakið á almenningi í borginni sem á rétt á þessum stuðningi," sagði borgarstjórinn.

Hanna Birna segir að rekstur borgarsjóðs eigi að vera hallalaus á næsta ári. Þátt fyrir sparnað sé engin hagræðingarkrafa gerð á velferðarsvið og lægri hagræðingarkrafa á menntasvið, leikskólasvið og íþrótta- og tómstundasvið en önnur svið borgarinnar. Staðinn verði vörður um grunnþjónustu, störf og gjaldskrár. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×