Innlent

Þurfti að fórna golfhring fyrir umræður um Icesave

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Sigmundur Ernir sleppti 18 holum fyrir umræður um Icesave.
Sigmundur Ernir sleppti 18 holum fyrir umræður um Icesave. Mynd/ GVA

Golfurum brá brún þegar þeir bókuðu sér rástíma í Grafarholti í dag. Þar gaf að líta nafn Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem átti skráðan rástíma klukkan 13:50 í dag en umræða um Icesave hefst klukkan þrjú.

Þótti sumum það fullgróft að þingmaðurinn ætlaði að spila 18 holur meðan mikilvægasta mál Íslendinga er rætt í þinginu.

„Ég pantaði þetta með góðum fyrirvara þegar ég hélt það yrði ekki þing í dag," segir Sigmundur sem var staddur í þinginu þegar fréttastofa náði tali af honum. Hann segir þetta veruleika sem golfarar á þingi búa við - að þurfa að slá af rástíma á síðustu stundu vegna þingstarfa.

Sigmundur segir vinnuna að sjálfsögðu hafa forgang. „Ég þurfti að senda konuna eina ásamt systur sinni og mági," segir hann. Aðspurður hvort að forgjöfin væri ekki í hættu ef áfram heldur sem horfir svaraði hann hlæjandi: „Jú forgjöfin fer alveg til andskotans með þessu áframhaldi."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×