Erlent

Frelsi fagnað í einangrun

Ismail Haniyeh Leiðtogi Hamas ætlar ekki að láta sér nægja Gasa. Nordicphotos/AFP
Ismail Haniyeh Leiðtogi Hamas ætlar ekki að láta sér nægja Gasa. Nordicphotos/AFP

Tugir þúsunda komu saman í Gasaborg í gær til að fagna 22 ára afmæli Hamas-samtakanna og sýna að samtökin njóti enn víðtæks stuðnings á Gasasvæðinu, þrátt fyrir að Ísrael haldi svæðinu í nánast algerri einangrun með viðvarandi fátækt.

Samtökin hafa farið með völd á Gasasvæðinu eftir að Palestínustjórn hraktist þaðan í kjölfar blóðugra átaka milli Hamas og Fatah, hinna tveggja helstu hreyfinga Palestínumanna.

Gasaborg var fagurlega skreytt í tilefni dagsins með grænum borðum og fánum Hamas-hreyfingarinnar. Nokkrir helstu leiðtogar Hamas fluttu ræður og hljómsveitir komu fram.

„Gasa er frjáls, Gasa er staðföst," söng karlakór og Ismail Hanyeh, leiðtogi Hamas, sagði að hreyfingin muni hvorki leggja niður vopn né viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis.

„Þessi hreyfing frelsaði Gasasvæðið með hjálp herskárra hópa," sagði hann, og bætti því við að samtökin ætli ekki að láta sér nægja Gasa, heldur horfi til allrar Palestínu.

„Frelsun Gasasvæðis er aðeins skref í áttina að frelsun allrar Palestínu."

Ísrael lokaði Gasasvæðinu í júní 2006 eftir að herskáir Palestínumenn tengdir samtökunum rændu ísraelska hermanninum Gilad Schalit. Einangrunin var hert ári síðar þegar Hamas hrakti sveitir tengdar Fatah-samtökunum og Palestínustjórn frá svæðinu.

Ghazi Hamad, einn af hófsamari leiðtogum samtakanna, segir að þau geti ekki stjórnað svæðinu upp á eigin spýtur til lengdar:

„Enginn getur rekið Hamas út af leiksviði stjórnmálanna, en Hamas getur ekki leikið einleik og það getur Fatah ekki heldur."

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×