Lífið

Clapton bíður eftir Draumey

ellen kristjánsdóttir Ellen hefur gefið út sína fyrstu plötu í tvö ár sem nefnist Draumey.fréttablaðið/anton
ellen kristjánsdóttir Ellen hefur gefið út sína fyrstu plötu í tvö ár sem nefnist Draumey.fréttablaðið/anton
Ellen Kristjánsdóttir gaf nýlega út sína fyrstu plötu í tvö ár. Hún nefnist Draumey og hefur að geyma hugljúf lög sem flest eru eftir Ellen og Pétur Ben, sem einnig tók upp plötuna. „Ég var búin að liggja á hálfkláruðu efni mjög lengi. Svo kom þetta tilboð um að hita upp fyrir Eric Clapton í fyrra. Þá fórum við saman og æfðum nokkur lög og svo fór ég upp í sveit í janúar á þessu ári," segir Ellen.

„Ég var ein með hundinn í viku með upptökutæki, hörpu og gítar og tók upp alveg rosalega mikið af lögum." Hún segir að Clapton hafi hvatt sig til dáða við plötugerðina á tónleikunum í Egilshöllinni „Hann hlustaði allan tímann og sagði: „Þið verðið að klára þetta og senda okkur plötu þegar þið eruð búin með hana"." Draumey hefur þó enn ekki ratað til gítarsnillingsins. „Ég er ekki búin að senda hana. Ég verð að fara að gera það. Hann fékk Sálmana. Það var eina platan sem ég var með í bílnum," segir hún og hlær. Hún bætir við að Draumey sé nokkurs konar uppgjörsplata þar sem hún syngur um æsku sína í San Francisco, föður sinn heitinn og unglingsár einnar af dætrum sínum.

Ellen hefur í nógu að snúast þessa dagana því fjölmargir tónleikar eru fram undan. Á miðvikudaginn heldur hún tvenna aðventutónleika með bróður sínum KK í Borgarleikhúsinu og 5. desember syngur hún með Borgardætrum á stórtónleikum Björgvins Halldórssonar. 10. desember verða síðan útgáfutónleikar vegna nýju plötunnar í Fríkirkjunni. Jafnframt eru fernir tónleikar á Rósenberg með Borgardætrum fyrirhugaðir. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.