Lífið

Stór maður með litla plötu

Sigurður Guðmundsson og Memfis mafían gerðu allt vitlaust með eldgömlum íslenskum slögurum í fyrra á plötunni Oft ég spurði mömmu. Sú plata var öll tekin upp á einn míkrafón eins og vaninn var á sjötta áratugnum.

Í lok vikunnar er von á tveimur jólalögum frá Sigurði og mafíunni. Nú er reyndar tekið upp með nútímatækni en útgáfuformið er fornt: Lögin tvö koma út á lítilli vinýlplötu. Þetta er að öllum líkindum fyrsta litla jólaplatan á vinýl síðan SG hljómplötur gaf út jólaplötu með Stúlknakór Selfoss árið 1973! Eru menn nú endanlega orðnir vitlausir?

„Já ætli það ekki bara!“ segir Sigurður og hlær. Hann segir að fólk hafi verið að spyrja sig hvort ekki væri von á „einhverju jóladóteríi“ frá honum og fyrst það hafi bara komið tvö lög hafi verið kjörið að gefa þau út á vinýl-plötu.

„Hvað gerir maður annars við tvö lög? Þau hefðu bara orðið undir ef þau hefðu bara komið út í stafrænu formi,“ segir Sigurður. „Svo er umslagið hálfpartinn eins og merkimiði í laginu og það má alveg nota plötuna sem merkimiða. Aðallega erum við þó bara að minna á að við séum ennþá starfandi. Það er aldrei að vita nema að þetta sé forsmekkurinn af einhverju meiru. Maður veit samt aldrei lengra en nef sér. Sérstaklega þegar maður býr á Íslandi.“

Hvað sem öðru líður á fastlega von á að koma með nýja plötu á næsta ári. Líklega næsta haust. Jólalögin sem Sigurður syngur á litlu plötunni voru upphaflega með Roy Orbison og Walker Brothers, en hirðskáldið Bragi Baggalútur Skúlason hefur íslenskað þau. Nú heita þau „Það snjóar“ og „Þá komu jólin“. Plötunni fylgir svo vefslóð þar sem hægt er að nálgast lögin á stafrænu formi.- drg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.