Innlent

Tæplega 30 prósenta fjölgun gjaldþrota

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI, vonar að botninum sé náð í samdrætti framkvæmda og það fari að lifna við á næstunni. 
Mynd/teitur
Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI, vonar að botninum sé náð í samdrætti framkvæmda og það fari að lifna við á næstunni. Mynd/teitur

Alls hafa 508 fyrir­tæki verið tekin til gjaldþrotaskipta á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 393 á sama tímabili fyrir ári. Þetta er rétt rúmlega 29 prósenta aukning á milli ára. Fjöldi gjaldþrota í júní var svipaður og fyrir ári, rétt rúmlega 90 talsins.

Það sem af er ári hefur gjaldþrotum í bygginga- og mannvirkjagerð, fjölgað mest, aukist úr 71 í 134. Hlutfallslega er aukningin þó mest í fjármála- og vátryggingastarfsemi en alls voru sjö gjaldþrot fyrir ári en 28 í ár. Gjaldþrotum í landbúnaði hefur hins vegar fækkað, og í fiskveiðum úr 32 í 17.

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að hann voni að botninum sé að verða náð og framkvæmdir fari að aukast á næstunni. „En það er alveg ljóst að umsvif byggingariðnaðarins verður ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var." Hann segir almennt mjög þungt hljóð í mönnum og margir hafi selt tæki, vélar og sagt upp starfsfólki en það hafi jafnvel ekki dugað til.

Jón vonast til að eftir að endurreisn bankakerfisins ljúki um miðjan mánuðinn þá verði auðveldara um vik að fá svör við þeim brýnu málum sem lúta að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja. „Það er ekki hægt að ýta þessu lengur á undan sér."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×