Innlent

Íslenskir sólbekkjanotendur óhræddir við krabbamein

Sindri Sindrason skrifar

Það leikur enginn vafi á því að ljósabekkir valda krabbameini, þetta staðfestir ný könnun Alþjóðakrabbameinsstofnunarinnar. Íslendingar halda þó stíft áfram að stunda bekkina og er brjálað að gera, segir sólbaðsstofustarfsmaður.

Samkvæmt Alþjóðakrabbameinsstofnuninni valda ljósabekkir hreinlega húðkrabbameini og jafnvel sortuæxli í augum. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem mönnum þykir staðfesta þessi tengsl svo óyggjandi sé. Líkur á því að fá sortuæxli aukast um 75 prósent séu ljósaböð hafin fyrir þrítugt, ef marka má rannsóknina.

Niðurstöður rannsóknanna hafa gefið yfirvöldum í Bretlandi tilefni til lagabreytinga en rætt hefur verið um að banna börnum yngri en átján ára að nota sólbekki. Hins vegar segja Sólbekkjasamtökin bresku að betra væri að banna börnum undir sextán ára aldri að nota bekkina og hafna þau rökum vísindamannanna um að ljósabekkir valdi krabbameini. Engin lög eru um þessi mál hér á landi. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra sagðist í samtali við fréttastofu ekki hafa kynnt sér málið en að hann myndi gera það í kjölfar nýrra upplýsinga um málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×