Innlent

Tjónið vegna Kryddsíldarmótmæla rúmar þrjár milljónir

Ari Edwald, forstjóri 365.
Ari Edwald, forstjóri 365.

Kostnaður vegna skemmda sem unnar voru á tækjabúnaði þegar mótmælendur rufu útsendingu á Kryddsíldinni á gamlársdag hefur verið tekinn saman auk þess fjárhagstjóns sem Stöð 2 varð fyrir þegar útsending var rofin. Ari Edwald, forstjóri 365, segir að tjónið nemi alls um 3,3 milljónum króna. Áfallið sem starfsmenn sem lentu í átökunum hafi orðið fyrir sé hinsvegar mun alvarlegra mál. Starfsfólkið ræddi málið á fundi í fyrrakvöld með sálfræðingi.

„Við höfum lagt mat á kostnað okkar hjá 365 og hjá Saga film, sem er verktaki við þessa framleiðslu. Beinu útgjöldin við endurnýjun á þessum kapli sem skemmdist eru um tvær milljónir króna. Þetta er mjög dýr ljósleiðarakapall sem getur flutt hljóð og mynd úr mörgum myndavélum og ég er ekki viss um að menn átti sig á því um hvað er verið að ræða." Ari segir ennfremur að dagskrárkostnaður 365 sem ónýttist vegna aðgerðanna hafi verið um 1,3 milljónir króna.

„En ég hef nú minnstar áhyggjur af krónum og aurum í þessu sambandi," segir Ari. „Ég sat nú fund með okkar starfsfólki sem lenti í þessu hjá 365 og Saga film, um tuttugu manns," segir Ari og bætir við að fundurinn hafi verið haldinn á Hótel Borg í fyrrakvöld og þar hafi fólki gefist kostur á að tala sig burt frá þessari óskemmtilegu reynslu með sálfræðingi. „Það er ljóst að áfallið sem fólkið sem lenti í þessu varð fyrir er mun meira en ég hafði gert mér grein fyrir. Margir hafa verið að missa svefn og eru óttaslegnir," segir Ari og bætir við að lítið þurfi til þess að fólk upplifi átökin á nýjan leik.

„Það þarf ekki annað en lykt af blysi eða einhve dólgsleg ummæli á bloggi til þess að koma þessum hughrifum af stað. Þessar lýsingar á fundinum minntu mig helst á lýsingar fórnarlamba annara ofbeldisverka á sinni upplifun," segir Ari sem segist ekki viss um að fólk sem mæli aðgerðunum bót geri sér grein fyrir því hvernig fórnarlömbin upplifa svona árásir. „Það finnst mér langalvarlegasti hluturinn í þessu máli en ekki þessar krónur," segir hann.

Ari segir að málið fari nú sína leið í kerfinu. „Við komum öllum upplýsingum um það tjón sem við urðum fyrir til lögreglu og gerum ráð fyrir því að þetta verði rannsakað eins og önnur slík mál eins og hægt er. Við sjáum svo bara til með það hvað kemur út úr því," segir Ari Edwald. forstjóri 365.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×