Innlent

Ráðherra kynnti frumvarp um rýmri heimildir til eignakyrrsetningar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skattrannsóknarstjóra verður heimilt að krefjast kyrrsetningar á eignum í málum sem hann rannsakar ef hætta þykir á að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun, samkvæmt nýju frumvarpi sem fjármálaráðherra kynnti fyrir ríkisstjórninni í morgun.

Í minnisblaði sem fjármálaráðherra lagði fyrir ríkisstjórnina kemur fram að fréttir á undanförnum vikum og mánuðum af milljarða fjármagnsflutningum frá Íslandi inn á bankareikninga í þekktum skattaskjólum af hálfu forsvarsmanna fjármálafyrirtækja sem annarra hafi vakið upp ótal spurningar um íslensk lög og rétt. Þær raddir verða því sífellt háværari sem segja að auka þurfi verulega við refsiheimildir stjórnvalda, m.a. til kyrrsetningu og/eða haldlagningu eigna þeirra aðila sem taldir eru bera ábyrgð á tjóninu og verða dæmdir sem slíkir.

„Stjórnvöld hafa þegar brugðist við þessum kröfum með ýmsum hætti með það að markmiði að rannsaka hvað úrskeiðis fór og hvort einhver brot hafi verið framin sem varði refsingu. Sett hefur verið á fót Rannsóknarnefnd Alþingis, embætti sérstaks saksóknara, auk þess sem Fjármálaeftirlitið hefur verið eflt. Þá hafa skattyfirvöld fengið auknar heimildir til upplýsingaöflunar, jafnt frá fjármálastofnunum og þeim sem skattaráðgjöf stunda.

Hjá skattyfirvöldum er þegar í gangi umfangsmikið starf sem miðar að því að kanna hvort farið hafi verið á svig við skattalög í tengslum við hrun bankanna eða starfsemi þeirra og þá hvort tekjum hafi verið skotið undan og refsiverð brot framin. Fyrir liggur að mál af þessum toga eru oftar en ekki mjög flókin og taka því eðli máls samkvæmt oft langan tíma. Í ljósi þess hefur jafnframt verið settur á laggirnar sérstakur starfshópur skattyfirvalda undir stjórn skattrannsóknarstjóra ríkisins í því skyni að hraða rannsókn hugsanlegra skattalagabrota í tengslum við fall bankanna sem kostur er, hvort sem er hjá eigendum, stjórnendum eða starfsmönnum þeirra, eða félögum sem þeim tengjast.

Ljóst er að með löngum málsmeðferðartíma skapast ákveðin hætta á að eignum sé komið undan enda er skattaðilum oftast ljóst þegar við upphaf meðferðar máls að til endurákvörðunar opinberra gjalda muni koma auk fésektar sé grunur uppi um refsiverð brot," segir í minnisblaðinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×