Innlent

Óánægja með skipan ferjumála

Herjólfur er í slipp og á meðan sinnir Baldur þeim sem þurfa að komast á milli lands og Eyja.
Herjólfur er í slipp og á meðan sinnir Baldur þeim sem þurfa að komast á milli lands og Eyja.

Bæði Vestmannaeyingar og Vestfirðingar eru óhressir með skipan ferjumála þessa dagana. Engin ferja leysir Baldur af hólmi á meðan hann sinnir siglingum fyrir Herjólf, sem er í slipp, og Eyjamenn segja Baldur allt of lítinn í verkefnið.

Breiðafjarðarferjan Baldur, sem leysir Vestmannaeyjaferjuna Herjólf af hólmi á meðan Herjóllfur er í slipp, fór frá Eyjum í morgun samkvæmt áætlun, en Baldur fór enga ferð í gær og aðeins fyrri ferðina í fyradag. Það stafar af því að ölduhæð var yfir þrír og hálfur metri, en Siglingastofnun leyfir ekki að ferjan sigli í meiri ölduhæð. Ölduhæðin var innan marka í morgun.

Einhverjir farþegar komust með flugi á milli lands og eyja í gær, en vörur til og frá fyrirtækjum í Eyjum komust hvergi. Almenningur og atvinnurekendur í Eyjum eru óhressir með að ekki skuli hafa verið fengin öflugri ferja frá útlöndum til að hlaupa í skarðið fyrir Herjólf.

En óánægjuraddir heyrast líka frá Vestfjörðum, einkum Suðurfjörðunum að hafa misst Baldur, á meðan hann leysir Herjólf af, enda fara miklir flutningar með Baldri yfir Breiðafjörðinn og ekkert skip leysir hann af.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×