Erlent

Frímúrarar í skýjunum með Dan Brown

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Svo virðist sem rithöfundinum Dan Brown hafi tekist að rita skáldsögu án þess að reita til reiði þá sem hún fjallar um.

Talsmenn kaþólsku kirkjunnar ruku upp til handa og fóta yfir DaVinci-lyklinum á sínum tíma og ekki voru menn heldur ánægðir hjá Opus Dei-hreyfingunni sem er kaþólsk. Aftur blossuðu upp deilur þegar bókin Englar og djöflar var kvikmynduð og var hún meðal annars bönnuð af kaþólikkum á Samóaeyjum en Vatíkanið lagði þó að lokum blessun sína yfir hana og kallaði saklausa skemmtun.

Nýjasta bók Brown, The Lost Symbol, sem mun væntanlega hljóta þýðinguna Týnda táknið, hefur hins vegar vakið mikla hrifningu hjá þeim hópi sem hún fjallar um en það eru frímúrarar. Greg Levenston, meistari frímúrarareglu í New South Wales í Ástralíu segir nýju bókina síður en svo koma sér illa fyrir reglubræður heldur þvert á móti gefi hún frímúrarareglum nýtt tækifæri til að opna sig og kynna sig betur.

Reglubræður Levenstons eru svo spenntir að þeir ætla að stofna bókaklúbb innan reglunnar og byrja að sjálfsögðu á því að taka The Lost Symbol fyrir. Byrjunarupplag bókarinnar verður sex og hálf milljón eintaka sem er það stærsta sem útgefandinn Random House hefur sent frá sér í einu lagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×