Innlent

„Aumkunarverð stjórnarandstaða“

Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, segir staðreyndina í Icesave málinu vera sú að frekari tafir þjóni ekki hagsmunum Íslendinga. Málþóf stjórnarandstöðunnar opinberi þann nöturlega sannleika að þingmenn hugsa meira um hag sinna flokka en þjóðarinnar. Bjarni segir að stjórnarandstaðan sé aumkunarverð.

„Reyndin er að í bréfum Indriða og AGS er sárafátt merkilegt og þessi bréf hafa verið aðgengileg þinginu um nokkurn tíma. Af sama tagi er sá æsingur að formenn fjárlaganefndar telja það vitaskuld ákvörðun nefndarinnar en ekki þingflokksformanna hvernig nefndin hagar störfum sínum. Skandalar í þessu máli gerast ómerkilegri og ómerkilegri með hverri vikunni og allt hugsandi fólk er komið með grænar," segir þingmaðurinn fyrrverandi í pistli á bloggsíðu sinni.

Bjarni fullyrðir að í raun og veru sé enginn pólitískur ágreiningur um það að Icesave samningarnir séu ósanngjarnir og tilkomnir fyrir þvingun og ofbeldi gamalla nýlenduvelda. Aftur á móti sé engin önnur leið fær í augnablikinu en að loka

málinu með þeim fyrirvörum sem náðst hafa í samningum.

„Það að draga málið getur orðið til að veikja stöðu okkar enn meira og gera skuldafjallið enn illvígara ef afleiðingin verður enn frekari gengisfelling og verra lánshæfismat."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×