Innlent

Allir mega vera með jólaþorp

Árviss viðburður hjá mörgum er að fara í Jólaþorpið sem var opnað á Thorsplani í Hafnarfirði fyrir helgi. Á fimmtudag bætast Reykvíkingar í hópinn með Jólaþorp á Hljómalindarreitnum.
Árviss viðburður hjá mörgum er að fara í Jólaþorpið sem var opnað á Thorsplani í Hafnarfirði fyrir helgi. Á fimmtudag bætast Reykvíkingar í hópinn með Jólaþorp á Hljómalindarreitnum.

 Hafnfirðingar fá ekki einkarétt á notkun vörumerkisins jólaþorp eins og bæjaryfirvöld höfðu óskað eftir við Einkaleyfastofu.

Samkvæmt úrskurði Einkaleyfastofu telja menn þar á bæ að heitið jólaþorp sé lýsandi orð yfir starfsemi eins og þá sem fram fari undir slíkum formerkjum. Orðið sé almennt og sérkennalaust.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu sóttu Hafnafirðingar um einkarétt á notkun orðsins eftir að í ljós kom að Reykvíkingar ætluðu að opna sambærilegan jólamarkað undir nafninu Jólaþorp á Hljómalindarreitnum í miðborg Reykjavíkur. Hafnfirðingar segjast bæði hafa lagt mikla vinnu og fjármuni í að kynna Jólaþorpið á Thorsplani síðastliðin sjö ár og telja sig hafa áunnið sér rétt til að nota umrætt heiti einir. Þessu hafa Reykvíkingar hafnað og reyndar skilgreint kröfu þessa nágrannasveitarfélags síns sem Hafnarfjarðarbrandara.

Hafnfirðingar hafa nú tveggja mánaða frest til að kæra niðurstöðu Einkaleyfastofu. Geri þeir það og sendi inn nánari skýringar með kröfu sinni tekur stofnunin málið fyrir að nýju og gefur frá sér úrskurð með nánari rökum.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×