Innlent

Hjúkrunarfræðingar ráðnir í störf sjúkraliða

Sjúkraliðafélagi Íslands hafa borist kvartanir yfir að verið sé að ráða hjúkrunarfræðinga í störf sjúkraliða. Einnig er kvartað yfir að hjúkrunarnemar séu ráðnir í störf sjúkraliða. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu félagsins. Með þessu telur félagið að mjög sé brotið á sjúkraliðum og eru gerðar alvarlegar athugasemdir við fyrirkomulagið.

„Ef hjúkrunarfræðingar eru ráðnir í störf sem sjúkraliðar hafa gengt sýnir það að stofnunin hefur betri ráð en látið er í veðri vaka. Félagið mun gera gangskör í að sækja þær kjarabætur sem sýnilega er verið að hafa af sjúkraliðum í skjóli þess að erfiðlega gangi að reka stofnanir," segir á heimasíðunni.

Þá er bent á að sjúkraliðunum sé einnig gert að lækka starfshlutfall sitt og vinna styttri vaktir. Þar af leiðir að í sumum tilfellum er um jafn marga vinnudaga að ræða eða fleiri, þannig að frídögum fjölgar ekki endilega.

„Þar sem hjúkrunarnemar eru ráðnir í störf sjúkraliða, kemur fram að þeir fá vaktaálagsvaktir svo sem kvöldvaktir þar sem þeir eru í skóla að deginum. Það er alveg ljóst að stofnanir eru með þessu að brjóta lög og reglugerðir um sjúkraliða," segir ennfremur.

Að lokum er bent á að hvorki „hjúkrunarfræðingar, né hjúkrunarnemar telja það aðalskyldu sína að hlaupa til og svara kalli sjúklinga og lendir því enn og aftur meira starf á sjúkraliðunum sem hafa verið að veikjast vegna mikils álags undanfarin ár. Forusta félagsins telur að við svo búið gangi ekki lengur og krefst úrbóta."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×