Innlent

Eitraður kræklingur í Eyjafirði

Fólki er bent á að neyta ekki kræklings úr Eyjafirði vegna eitrunarhættu.
Fólki er bent á að neyta ekki kræklings úr Eyjafirði vegna eitrunarhættu.

Lömunareitrið PSP hefur greinst í kræklingi úr Eyjafirði, að því er fram kemur á heimasíðu Matvælastofnunar. Stofnunin varar sterklega við neyslu og tínslu á kræklingi og öðrum skelfiski úr Eyjafirði. Í sýnum sem nýlega voru tekin til þörungaeitursgreiningar reyndist magn PSP vera rétt undir viðmiðunarmörkum en magn Alexandrium-þörunga sem valda eitrun yfir hættumörkum.

Áhrif PSP-eitrunar á spendýr eru í því fólgin að eitrið truflar natríumbúskap taugafrumna, sem leiðir af sér truflun á taugaboðum og getur valdið lömun, öndunarerfiðleikum og jafnvel dauða. Þessi gerð þörungaeitrunar hverfur úr skelfiskinum á skömmum tíma eftir að þörungar hafa horfið af hafsvæðinu.

Fylgst verður á næstunni með þróun mála, að því er fram kemur hjá MAST. Varað er við neyslu á skelfiski þar til sýnt hefur verið fram á að PSP-eitur sé undir viðmiðunarmörkum í kræklingi.

Við tínslu á villtum kræklingi þarf að hafa í huga að hann gæti verið eitraður. Ef grunur er um eitrun eftir neyslu á skelfiski ætti strax að leita læknis. - jss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×