Erlent

Dularfullt ljós yfir Noregi

Óli Tynes skrifar

Einn sjónarvotta í Noregi sagði að ljósið hafi myndað einhverskonar risastóran marglaga hring sem sendi frá sér bláan geisla til jarðar. Fyrirbærið var sýnilegt í margar mínútur.

Ljósið sást allt frá Þrændalögum í suðri til Finnmerkur í norðri. Þúsundir manna hringdu í norsku veðurstofuna til þess að spyrja um fyrirbærið, en þar voru menn jafn gáttaðir og aðrir. Sömu sögu er að segja um norska flugherinn.

Haft var samband við Rússa út af hugsanlegu eldflaugaskoti, en þeir neituðu að hafa komið þarna nærri. Paul Brekke ráðgjafi við norsku geimvísindastofnunina telur þó líklegast að skýringin liggi hjá Rússum.

Vitað hafi verið að þeir hafi ætlað að skjóta upp eldflaug frá kafbáti á Hvítahafi. Líklega hafi skotið mistekist og eldflaugin snarsnúist í hringi sem hafi myndað spíralinn sem menn sáu.

Þar sem þetta gerðist í dögun hafi svo sólarljósið lýst upp eldsneyti sem spýttist út úr eldflauginn.

Brekke segir að þetta sé líklegasta skýringin, en hvað sem hafi valdið þessu hafi sjónarspilið verið stórkostlegt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×