Innlent

Óljóst hvort leyfilegt verður að greiða út séreignarsparnað

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra.
Árni Mathiesen, fjármálaráðherra.

Niðurstöðu er að vænta um hvort leyft verði að greiða fólki út séreignarlífeyrisparnað sinn. Skiptar skoðanir eru um málið, en fjármálaráðherra vill ekki tjá sig um það.

Landsmenn hafa lagt um 250 til 300 milljarða króna í séreignarsparnað á þeim 9 árum sem sá möguleiki hefur verið fyrir hendi. Samkvæmt lögum er óheimilt að taka út lífeyrissparnað fyrir 60 ára aldur, en eftir bankahrunið var farið að skoða hugmyndir um að gera séreignarsparnaðinn aðgengilegan eigendum - einkum til að styrkja stöðu þeirra sem eru í greiðsluerfiðleikum. Margir telja sig geta leiðrétt bágan fjárhag með því að fá aðgang að séreignarsparnaði og bíða með óþreyju eftir niðurstöðu í málinu. Lítið hefur hins vegar farið fyrir umræðunni um það síðustu vikur.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er niðurstaða í sjónmáli, en áður en pólitísk ákvörðun er tekin þurfa að liggja fyrir upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu sem sýna meðal annars hvaða áhrif útborgun séreignarsparnaðar hefði á lífeyrissjóðina sjálfa.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður, hefur fylgt málinu eftir fyrir hönd Samfylkingar og hefur talað fyrir því að fólki verði gert kleift að taka út séreignarsparnað sinn, enda er hún sannfærð um að einungis þeir verst settu myndu nýta sér þennan möguleika. Ekki eru þó allir sammála því og hafa ýmsir forsvarsmenn lífeyrissjóða áhyggjur af því að aðgerð sem þessi gæti verðfellt sjóðina og þeir kynnu að lenda í erfiðleikum.

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, var ekki reiðubúinn til að veita viðtal og greina frá gangi mála þegar eftir því var leitað í dag.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×