Erlent

Fjöldi ára hefur farið í súginn

Kai Eide erindreki Sameinuðu þjóðanna í Afganistan segir nóg komið af smáskammtaaðferðum. fréttablaðið/AP
Kai Eide erindreki Sameinuðu þjóðanna í Afganistan segir nóg komið af smáskammtaaðferðum. fréttablaðið/AP

 Alþjóðlegt uppbyggingarstarf í Afganistan hefur að mörgu leyti verið unnið fyrir gýg árum saman vegna þess að samhæfingu hefur skort.

Þetta segir Kai Eide, yfirmaður Sameinuðu þjóðanna í Afganistan, sem heldur því fram að ríkin sem standa að uppbyggingarstarfi í Afganistan verði að átta sig á því að samhæfa verði starfið og setja þeim heildstæð markmið.

„Smáskammtaaðferðirnar munu skila ekki árangri,“ sagði Eide. „Nú er komið nóg af slíkum aðferðum.“

Eide útlistaði ekki nánar hvað hann ætti við, en uppbyggingarstarfið í Afganistan hefur oft verið gagnrýnt fyrir að áherslan sé á smærri verkefni sem auðvelt er að framkvæma en skila kannski litlum árangri fyrir landið í heild. Stærri verkefni á borð við endurnýjun og uppbyggingu vegakerfisins hafi mætt afgangi.

Í dag koma háttsettir embættismenn frá 27 löndum saman í París til að ræða uppbyggingarstarfið í Afganistan, sem nú hefur staðið yfir í nærri átta ár. Búist er við að fundurinn verði til þess að afgönsk stjórnvöld taki á sig meiri ábyrgð.

Ástandið í Afganistan hefur versnað töluvert. Ofbeldi hefur sjaldan verið meira og nýafstaðnar forsetakosningar gætu orðið uppspretta nýrra átaka vegna óvissu um úrslitin og ásakana um kosningasvindl. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×