Lífið

Réttir verða endurteknar á næsta ári

eldar ástþórsson Eldar er einn af skipuleggjendum tónleikaraðarinnar Rétta.fréttablaðið/arnþór
eldar ástþórsson Eldar er einn af skipuleggjendum tónleikaraðarinnar Rétta.fréttablaðið/arnþór

Tónleikaröðin Réttir sem var haldin um síðustu helgi verður aftur í Reykjavík á næsta ári, að sögn Eldars Ástþórssonar, eins af skipuleggjendum viðburðarins. „Þetta fór fram úr okkar björtustu vonum og gekk ótrúlega vel.

Þetta voru yfir hundrað tónleikar og það var fullt út úr dyrum á vel flestum. Ég held að það sé ljóst af viðbrögðum hátíðarinnar í ár að við munum endurtaka leikinn,“ segir Eldar.

„Við ætluðum fyrst að hafa þetta lítið í sniðum en svo vatt þetta upp á sig og það bættust við fleiri staðir og fleiri vildu vera með. Þrátt fyrir lítinn fyrirvara og enga styrki sem við gátum reitt okkur á tókst þetta feikivel.“

Iceland Airwaves-tónlistar­hátíðin verður haldin 14. til 18. október og því er afar stutt á milli þessara tveggja svipuðu hátíða. Eldar vill ekki meina að þær skarist enda hafi miðasala á Airwaves gengið sérlega vel.

„Það virðist vera bæði markaður og stemning fyrir því að hafa fyrirbæri eins og Réttir í september. Eini mínusinn er að það er stutt á milli hátíðanna en við sem stöndum að Réttum höfðum aldrei áhyggjur af því að þetta myndi bitna á öðrum viðburðum haustsins eða vetrarins, til að mynda Airwaves-hátíðinni. Við vonuðumst til að þetta myndi ganga vel upp bæði fyrir okkur sem höldum Réttir og þá sem halda Airwaves og það tókst.“

Vegna takmarkaðs fjármagns fengu erlendu hljómsveitirnar sem komu fram á Réttum lítið greitt. „Við vorum að hjálpa þeim með gistingu en greiddum ekki mikil laun. Það hefði aldrei gengið upp.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.