Erlent

Stærsta raftækjasýning heims svipur hjá sjón

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Veruleg breyting hefur orðið á gestafjölda CES-sýningarinnar.
Veruleg breyting hefur orðið á gestafjölda CES-sýningarinnar. MYND/Reuters

Raftækjasýningin í Las Vegas, sem alla jafna laðar að sér mikinn fjölda gesta, er ekki nema svipur hjá sjón í ár.

Auðir básar, aðgerðalaust veitingasölufólk og meðalstór gestahópur sem röltir í rólegheitum um svæðið er það sem vekur fyrst eftirtekt á því sem fram að þessu hefur að jafnaði verið stærsta tæknisýning heims og gengur undir heitinu CES eða Consumer Electronics Show. Sýningin, sem haldin er í spilaborginni Las Vegas, er þó síður en svo rafmögnuð í ár.

Af þeim 130.000 manns sem skráðu sig sem væntanlega gesti virðast einhverjir hafa forfallast. Undanfarin ár hefur CES-sýningunni verið lýst sem hálfgerðum vígvelli, slík hefur aðsóknin verið, og fáar ef nokkrar tæknisýningar komist með tærnar þar sem hún hefur hælana. Bill Gates, sem þá var stjórnarformaður Microsoft, ávarpaði troðfullt hús gesta á sýningunni 2007 en nú er svo komið að kynningarfulltrúarnir á bás Microsoft hafa lítið annað að gera en spjalla hver við annan.

Gestir og talsmenn fyrirtækja minnast sýninga síðustu ára þar sem fólk átti yfirleitt fullt í fangi við að koma sér milli staða vegna manngrúans. Hvað er svo sem við þessu að segja? Neytendur hafa sennilega um annað að hugsa þessa dagana en að sanka að sér dýrum leikföngum í formi heimilistækja. Það er eitthvað svo 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×