Innlent

Engin lánveitingamál borist saksóknara

Gunnar Andersen, forstjóri FME.
Gunnar Andersen, forstjóri FME.

Búast má við því að rannsóknum Fjármálaeftirlitsins (FME) á lánveitingum viðskiptabankanna þriggja til tengdra aðila ljúki fyrir lok ágúst, segir Gunnar Andersen, forstjóri FME.

Þegar rannsókn er lokið verður ákveðið hvort málin fara til Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, eða hvort þau verða látin niður falla. Engin slík mál hafa borist embættinu enn, segir Ólafur.

Gunnar segir önnur mál en lánveitingar banka til aðila tengdum eigendum þeirra mun alvarlegri í augum FME. Þar megi til dæmis nefna grun um markaðsmisnotkun, innherjaviðskipti og önnur dæmi um slæma viðskiptahætti og óskiljanlegar ákvarðanir.

Ríkisútvarpið leiddi að því líkur í frétt á sunnudag að Landsbankinn hafi lánað félögum tengdum stjórnendum bankans hærri upphæð en leyfilegt hafi verið. Í yfirlýsingu frá fyrrverandi eigendum bankans er frétt Ríkisútvarpsins sögð röng. Lög banni lánveitingar til tengdra aðila umfram ákveðið hlutfall, en það eigi ekki við þegar um yfirtökur eldri lána og ábyrgða sé að ræða.

Gunnar segir reglu um hlutfall útlána til tengdra aðila ófrávíkjanlega. Þegar hlutfallið hafi orðið of hátt, til dæmis vegna gengisbreytinga eða samruna, hafi verið veittur tímafrestur til að laga hlutfallið. Slíkt hafi nokkrum sinnum komið fyrir, sér vitanlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×