Innlent

Þarf að endurskoða launamál hjá ríkinu

RÚV
RÚV

„Við þykjumst sjá dæmi þess að forstöðumönnum stofnana hafi verið hent út í djúpu laugina. Ég held að þeir hafi ekki fengið nægilega þjálfun til að umgangast þennan málaflokk með sömu röggsemi, eða það má kalla það hörku, og viðgekkst áður,“ segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.

Í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2008 segir að ríkisstofnanir virðist ekki hafa verið nægjanlega vel undir það búnar að taka sjálfstæðar ákvarðanir um launamál starfsmanna sinna. Það hafi verið gagnrýnt að ekki hafi nægjanlega vel verið staðið að því að færa launaákvarðanir úr miðstýrðu kerfi til einstakra stofnana á sínum tíma.

Launamál ríkisstarfsmanna fóru alfarið í gegnum Launaskrifstofu ríkisins áður en ákveðið var að færa ábyrgð á rekstri hverrar stofnunar til stjórnenda þeirra.

„Við erum að vitna í þetta og hvort ástæða sé til að stíga eitt skref til baka svo að menn séu ekki jafn sjálfráðir og nú er hvað varðar launaþáttinn. Þá er ég alls ekki að segja að horfið verði til fyrra horfs. Ábyrgðin yrði sem áður hjá forstöðumönnum stofnananna,“ segir Sveinn. „Ég held engu síður að það sé nauðsynlegt að þeir hafi aðhald og fái aðstoð sem þekkja launamálin, og ekki síður samningamálin, hvað best.“

Laun eru drjúgur hluti af rekstrarkostnaði hverrar ríkisstofnunar. Ríkisendurskoðun hefur bent á að þess vegna séu laun helsta matarholan þegar kemur að niðurskurði í ríkisrekstri. Áætlaðar launagreiðslur ríkisins samkvæmt fjárlagafrumvarpi árið 2010 eru 119 milljarðar króna af 555 milljarða heildarútgjöldum.

Eins og komið hefur fram eru yfirkeyrslur ríkisstofnana fram úr fjárveitingum töluverðar, og hefur vandinn verið viðvarandi undanfarin ár. Sveinn telur að frjálsræði forstöðumanna við launaákvarðanir séu hluti af þeim vanda.

Ríkisendurskoðun hvetur í skýrslu sinni til að launamálin, sem svo mikla þýðingu hafa fyrir útgjöld ríkisins, verði tekin til endurmats með hliðsjón af þeirri reynslu sem komin er á launamál í meðförum einstakra ríkisstofnana á undanförnum árum. Í heild er niðurstaða skýrslunnar að mikið ógagnsæi sé í launamálum ríkisins, og kemur þar til fyrirkomulag á yfirvinnu- og aukagreiðslum.

svavar@frettabladid.is

Háskóli Íslands



Fleiri fréttir

Sjá meira


×