Innlent

Andri Snær fær Kairos verðlaunin

Andri Snær Magnason.
Andri Snær Magnason.

Alfred Toepfer stofnunin í Hamborg hefur tilkynnt að Andri Snær Magnason fá Kairos verðlaunin árið 2010 en þau eru talin ein mikilvægustu menningarverðlaun Evrópu samkvæmt tilkynningu.

Verðlaunaafhendingin fer fram í Hamborg þann 28. febrúar árið 2010 og nemur verðlaunaféð 75.000 evrum eða rúmum 13 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi.

Toepfer stofnunin hefur um langt skeið veitt verðlaun á sviði menningar og lista í Evrópu en áður hafa listamenn eins og Harold Pinter, Pina Bausch, Imre Kertesz, David Hockney og Ólafur Elíasson verið meðal þeirra sem hafa hlotið verðlaun frá stofnuninni.

Verðlaunin eru nefnd eftir gríska guðinum KAIROS sem var guð hinnar „réttu stundar" og eru hugsuð sem viðurkenning fyrir framúrskarandi störf en þó ekki ævistarf - heldur eru þau hugsuð sem hvatning og stuðningur til frekari verka.

Kairos verðlaunin eru veitt einu sinni á ári og ætluð listamönnum á sviði myndlistar, tónlistar, arkitektúrs, kvikmyndagerðar, ljósmyndunar, ritlistar eða blaðamennsku. Andri Snær hefur vakið athygli fyrir óvenju fjölbreyttan feril, frá ljóðlist, leikritun og skáldskap til verka sem taka á samfélagslegum málefnum og náttúruvernd. Dómnefndin byggði val sitt meðal annars á því að Andri Snær - sem höfundur stillir sér ekki upp sem hlutlaus áhorfandi heldur sem beinn þáttakandi í samfélaginu.

Í fréttatilkynningu Alfred Toepfer stofnunarinnar segir meðal annars að: „með húmor og sannfæringarkrafti ljái hann kraftmikilli grasrótarhreyfingu á Íslandi rödd sína og sköpunarhæfileika".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×