Viðskipti innlent

Útrásin lifir: Íslendingar stofna flugfélag í Litháen

Hópur íslenskra fjárfesta er nú að stofna flugfélag í Vilnius, höfuðborg Litháen. Flugfélagið á að heita Lithuania Express og á að byggja á Iceland Express eins og það var í upphafi þegar það var stofnað árið 2003.

Samkvæmt frétt um málið á vefsíðunni balticbusinessnews (bbn) er Þorsteinn Guðnason í forsvari fyrir íslenska hópinn en hann samanstendur af þremur félögum og átta einstaklingum.

Ætlunin er að hið nýja flugfélag fljúgi til þriggja áfangastaða frá Vilnius fyrsta kastið. Fyrstu eigendur og starfsmenn Iceland Express hafa verið fengnir til ráðgjafar við að koma félaginu á laggirnar.

„Okkar áætlun er að byrja með áætlunarflug til Amsterdam, Berlínar og Kaupmannahafnar," segir Þorsteinn í samtali við news2biz í Litháen. „Það er ekkert flug í dag frá Vilnius til Amsterdam og Berlínar en á leiðinni til Kaupmannahafnar munum við keppa við tvö önnur flugfélög. En Kaupmannahöfn er jú vinsælasti áfangastaður frá Litháen."

Í máli Þorsteins kemur fram að félagið muni hefja rekstur með einni Boeing 737-700 og að fljótlega muni önnur vél bætast í flotann. „Í stað þess að vera með 148 sæti í vélinni verðum við með 136 sæti og bjóðum því upp á rýmra pláss í okkar ferðum," segir Þorsteinn. „Markhópur okkar er viðskiptafólk sem vill fá gæði fyrir peninga sína."

Samkvæmt vefsíðunni staðhæfa Íslendingarnar að þeir séu komnir með öll tilskilin leyfi fyrir flugrekstri sínum. „Eitt af félögum okkar er staðsett í Danmörku og er með danskt flugrekstrarleyfi (AOC) innan ESB. Yfirvöld í Litháen þurfa aðeins að staðfesta það," segir Þorsteinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×