Innlent

Segja Icesave-frumvarp stangast á við stjórnarskrá

Icesave.
Icesave.

Þeir Lárus H. Blöndal hæstaréttalögmaður, lagaprófessorarnir Sigurður Líndal og Stefán Már Stefánsson rita grein í Morgunblaðið í dag um stjórnarskrána og Icesave-samningana. Í greininni segja þeir óvíst að frumvarpið um Icesave skuldbindingarnar sem Alþingi fjallar nú um standist stjórnarskrána.

Við lögin, sem samþykkt voru á Alþingi í byrjun september um ríkisábyrgð vegna Icesavesamninganna, hafi verið ákveðnir fyrirvarar. Þannig voru sett efnahagsleg viðmið sem takmörkuðu ábyrgð ríksins við ákveðið hámark af vexti vergrar landsframleiðslu á hverju ári. Þetta átti að tryggja að greiðslur yrðu ávallt innan greiðsluþols íslenska ríksins. Einnig var við það miðað að fengist sú niðurstaða hjá þar til bærum úrskurðaraðila að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð gæti ríkið losnað undan ábyrgðinni.

Lögfræðingarnir segja að með frumvarpinu nú sé ábyrgðin hluti af lánasamningum og skilyrðislaus. Skuldbindingar séu óljósar og ófyrirsjáanlegar.

Ef efnahagsástand þjóðarinnar versni á greiðslutímanum geta skuldbindingarnar valdið þungum búsifjum. Svipað geti gerst ef neyðarlögunum verði vikið til hliðar. Litið hafi verið framhjá möguleikanum á því að neyðarlögin verði felld úr gildi og að ríkið þurfi þá að greiða kröfuhöfunum bætur. Ef svo færi gæti ríkið þurft að greiða á annað þúsund milljarða króna. Þjóðin gæti ekki staðið fjárhagslega undir því ásamt öðrum skuldbindingum.

Í stjórnarskránni sé kveðið á um að ríkið megi ekki taka lán sem skuldbinda ríkið nema með lagaheimild og að lagareglur verði að vera skýrar og afdráttalausar. Þau lög sem nú er rætt um á Alþingi vegna Icesave séu þannig að enginn virðist vita með vissa hvaða skuldbindingar sé verið að gangst undir. Draga verði því í efa að lögin standist stjórnarskrána og að með þeim sé verið að skerða fullveldi ríksins.

Fjárlaganefnd fundaði um Icesave málið í gær. Þangað mættu fjórir lögfræðingar til að leggja mat sitt á hvort að frumvarpið um Icesave stangist á við stjórnarskrá. Þrír, Eiríkur Tómasson, Björg Thorarensen og Ragnhildur Helgadóttir, voru á því að svo væri ekki en Sigurður Líndal taldi það álitamál






Fleiri fréttir

Sjá meira


×