Innlent

Lögreglan hvetur fólk til að passa upp á bifreiðar sínar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Brotist var inn í tvær bifreiðar á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Annars vegar var brotist inn í bíl við Egilshöll og þaðan stolið staðsetningartæki. Þá var brotist inn í bifreið við Víkurhvarf í Kópavogi og þaðan stolið bílahljómflutningstækjum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar eigendur og umráðamenn ökutækja við því að skilja verðmæti eftir í bílum.

Talsvert sé um innbrot í bíla á höfuðborgarsvæðinu en þjófum sé ekkert heilagt og þeir steli jafnvel jólagjöfum ef því sé að skipta. Annars séu það einkum GPS-tæki, myndavélar og tölvur sem freisti þjófa en þetta verði eigendur eða umráðamenn ökutækja að hafa hugfast og muna að skilja ekki nein verðmæti eftir í bílum og alls ekki í augsýn.

Þá bendir lögreglan á mikilvægi þess að skilja bíla frekar eftir á upplýstum bílastæðum, ef þess er nokkur kostur. Þjófum finnist nefnilega fátt betra en að athafna sig í myrkrinu þar sem ekki sést til þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×