Erlent

Ciudad Juarez að verða hættulegust borga

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hermenn leita í bifreið á götu í Ciudad Juarez.
Hermenn leita í bifreið á götu í Ciudad Juarez. MYND/Reuters

Mexíkóska borgin Ciudad Juarez er á góðri leið með að næla sér í titilinn hættulegasta borg heimsins.

Þessi vafasami heiður á að öllum líkindum eftir að falla borginni í skaut í ljósi þess að þar eru ár hvert framin 130 morð fyrir hverja 100.000 íbúa sem þar búa en íbúar eru í heildina 1,6 milljónir. Þar með skýst Ciudad Juarez jafnvel fram fyrir Caracas, höfuðborg Venesúela, og Medellin í Kólumbíu en þar er jafnan nóg um ofbeldi og blóðsúthellingar þegar eiturlyfjahringir bítast um markaði sína.

Kókaínsmygl frá Ciudad Juarez til Bandaríkjanna er meginorsök stríðsástandsins sem þar ríkir en milljarðar dollara eru að jafnaði í húfi og skirrast glæpagengin ekki við að beita óvönduðum meðulum til að gæta hagsmuna sinna. Með 250 morð í hverjum mánuði skýtur Ciudad Juarez jafnvel sjálfri Baghdad, höfuðborg Íraks, ref fyrir rass þar sem sjálfsmorðsprengjuárásir og önnur ódæðisverk eru nánast daglegt brauð.

Þá er það talið jafnvel meira áhyggjuefni en að 10.000 hermenn á götum mexíkósku borgarinnar fái ekki rönd við reist að stjórnvöld í borginni segjast hafa fullkomna stjórn á ástandinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×