Innlent

Tugmilljóna skattar á hlutabréfahlunnindi stjórnenda

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Tuga og jafnvel hundruð milljóna skattar verða lagðir á stjórnendur í atvinnulífinu sem keyptu hlutabréf á sérkjörum, samkvæmt nýjum úrskurði yfirskattanefndar.

 

Algengt var að stjórnendur og millistjórnendur víða í fjármálageiranum og mörgum öðrum af helstu fyrirtækjum landsins keyptu hlutabréf í félaginu sem þeir störfuðu hjá og fengu jafnframt sölutryggingu á hlutabréfin til að verja þá tapi auk ábyrgðar á láni fyrir kaupunum. Deilt hefur verið um hvort tekjur sem af þessu mynduðust í góðærinu hafi verið fjármagnstekjur eða launatekjur.

 

Nú hefur yfirskattanefnt fellt um þetta úrskurð þar sem kveðið er á um að í þessum samningum felist tekjur sem beri að skattleggja sem laun. Skiptir þá engu hvort að kaupin hafi verið gerð á kennitölu viðkomandi eða í gegnum einkahlutafélag. Stjórnendur í atvinnulífinu, sem höfðu gríðarmiklar tekjur af hlutabréfaviðskiptum í góðærinu munu því þurfa að greiða viðbótarskatta sem geta numið hundruðum milljóna króna þegar skattlagningin breytist úr því að vera 10% í um það bil 35%.

 

Dæmi eru um að einstaklingar hafi verið með 2 til 300 milljónir í tekjur af svona samningum. Þá er ekki útilokað að það komi til 25% álag vegna vangoldinna skatta. Meðal þeirra sem gerðu svona samninga samkvæmt Kauphöll Íslands eru t.a.m.Kaupþingsstarfsmennirnir Ármann Þorvaldsson, Bjarki H. Diego, Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, Kristín Pétursdóttir og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson.

 

Fleiri sem gerðu svona samninga voru Þórður Már Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Straums, og nokkrir forstöðumenn félagsins, Róbert Wessman, fyrrverandi forstjóri Actavis, Magnús Jónsson, forstjóri Atorku Group og Reimar Pétursson og Benedikt Olgeirsson, framkvæmdastjórar hjá Atorku Group.

 

Samkvæmt heimildum frá embætti ríkisskattstjóra verður unnið að því að endurákvarða skatta á þessa aðila leiðrétti þeir ekki framtöl sín sjálfir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×