Lífið

Huldumaður greiddi kokkakertin

Úlfar og Tómas dreifa gjöfum til barna í næstu viku.
Úlfar og Tómas dreifa gjöfum til barna í næstu viku.

„Það var hringt í okkur frá Sól­heimum í Grímsnesi og spurt hvert ætti að senda kertin. Það var bara einhver sem greiddi,“ segir matreiðslumaðurinn Úlfar Eysteinsson.

Úlfar og félagi hans, hamborgarakóngurinn Tómas Tómasson, ætla að dreifa kertum og spilum til barna í næstu viku. Eins og Fréttablaðið greindi frá á dögunum þá biðluðu kokkarnir til Seðlabanka Íslands um styrk fyrir kertum frá Sólheimum. Í kjölfar fréttarinnar hafði huldu­maður samband við Sólheima og greiddi kertin og Úlfar segir engu máli skipta hver var þar að verki. „Það kom okkur mjög á óvart. Við þurfum ekki að ónáða neinn með það,“ segir hann. „Við erum ekkert að kafa í þetta. Það eru einhverjir að mótmæla á jákvæðan hátt eins og við.“

Eins og kunnugt er þá eru Úlfar og Tómas að mótmæla háum stýrivöxtum Seðlabankans, en þeir ætla ekki að raka sig fyrr en vextirnir lækka um 1,5 prósent. Kokkarnir dreifa huldukertunum og spilunum, sem Icelandair gaf, í leikskóla, barnaspítala Hringsins og víðar í næstu viku. Úlfar segir að allt sé að smella saman og búið sé að redda því sem þarf að redda. „Hestvagninn kemur úr Grindavík og hesturinn og öku­maðurinn úr Hafnarfirði. Þetta er allt að bresta á,“ segir hann.

En hvað heitir hesturinn? „Hann er bleikur og við köllum hann það. Það var eins nálægt og við komumst að jólasveinalitnum.“ - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.