Lífið

Áhrifamiklar hljóðbækur

Gísli Helgason, eigandi Hljóðvinnslunar, gefur út hljóðskreyttar hljóðbækur fyrir jólin. 
fréttablaðið/valli
Gísli Helgason, eigandi Hljóðvinnslunar, gefur út hljóðskreyttar hljóðbækur fyrir jólin. fréttablaðið/valli

Fyrirtækið Hljóðbók.is hefur tekið upp á þeirri nýjung að hljóðskreyta þrjár hljóðbækur sem gefnar verða út fyrir jólin. Hljóðskreyttu bækurnar þrjár eru Útkall við Látrabjarg eftir Óttar Sveinsson, Kafbátasaga eftir Örnólf Thorlacius og Pétur poppari eftir Kristján Hreinsson.

„Við notum hljóðeffekta til að auka áhrif sögunnar. Í upphafi bókarinnar Útkall við Látrabjarg heyrist brimrót og hvernig sjómennirnir berjast fyrir lífi sínu og eykur þetta áhrifamátt frásagnarinnar. Kafbátasaga er skreytt með ýmsum kafbátahljóðum og ævisaga Péturs poppara er hljóðskreytt með tóndæmum frá hljómsveitum Péturs,“ útskýrir Gísli Helgason, annar eigandi Hljóðbókar.is.

Fyrsta hljóðskreytta bókin, Flóttinn frá Heimaey, kom út í fyrra og að sögn Gísla voru viðtökurnar það góðar að ákveðið var að gefa út fleiri hljóðskreyttar bækur nú í ár. „Viðbrögðin hafa verið góð og fólk hefur sagt við okkur að það hafi farið hrollur um það þegar það hlustaði til dæmis á Útkallið við Látrabjarg.“

Gísli segir hljóðbækurnar vera fyrir alla þá sem hafa gaman af því að hlusta á góða sögu og segir fólk hlusta á sögurnar í bílnum, líkamsræktinni og heima hjá sér. „Sumir hlusta á sögurnar fyrir svefn og finnst gott að sofna út frá lestrinum þannig að hljóðbækurnar er hægt að nota við öll tækifæri,“ segir hann.

Hljóðbækurnar fást í flestum bókabúðum auk þess sem hægt er að panta þær á heimasíðunni www.hljodbok.is. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.