Innlent

Grafarvogsbúar funduðu um framtíðina

Grafarvogsbúar ræða um framtíðarskipulagið. Á myndinni má meðal annara sjá Grafarvogsbúann og þingmanninn Guðlaug Þór Þórðarson.
Grafarvogsbúar ræða um framtíðarskipulagið. Á myndinni má meðal annara sjá Grafarvogsbúann og þingmanninn Guðlaug Þór Þórðarson.

Samgöngumál og íþróttir og útivist voru íbúum Grafarvogs efst í huga á opnu húsi í Foldarskóla í gær um framtíðarskipulag hverfisins. Þetta var þriðja opna húsið af 10 sem Skipulags- og byggingarsvið efnir til í hverfum borgarinnar í tengslum við endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur.

Í tilkynningu segir að tæplega 50 íbúar hafi mætt á opna húsið í Grafarvogi og tekið þátt í hugmyndasmiðju ungra arkitekta og vinnuhópum þar sem til umræðu voru m.a. samgöngur, lífsgæði, kjarninn í hverfinu, skólamál og íþrótta- og útivistarmál. „Samtímis fór fram krakkasmiðja fyrir börn á vegum Myndlistarskólans í Reykjavík þar sem börnin gátu skapað og leikið sér."

Þá segir að gaman hafi verið að sjá hversu virkir íbúar Grafarvogs voru í umræðum og mótun á framtíðarsýn hverfisins. „Líflegar umræður voru í öllum vinnuhópunum en svo virtist sem samgöngumál og íþróttir og útivist væru þeir málaflokkar sem flestir viðstaddra hefðu áhuga á að tjá sig um. Mikill áhugi var einnig á bæði skólamálum og lífsgæðum íbúa í Grafarvogi."

Næsta opna hús verður í Árbæjarskóla í Árbæjarhverfi fimmtudaginn 5. nóvember 2009 frá kl. 17.00 - 18:30. Nánari upplýsingar um opnu húsin, sem og fréttir og myndir frá þeim, má nálgast á vef verkefnisins, www.adalskipulag.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×