Innlent

Fjölgun brota áhyggjuefni segir dómsmálaráðherra

Tíu innbrot eru framin dag hvern miðað við fjölda innbrota fyrstu sex mánuði ársins. Myndin er sviðsett.
Tíu innbrot eru framin dag hvern miðað við fjölda innbrota fyrstu sex mánuði ársins. Myndin er sviðsett.
Innbrotum sem skráð hafa verið hjá lögregluembættum landsins fjölgaði um 78 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra.

Alls voru 1.837 innbrot framin á tímabilinu, sem jafngildir því að tíu innbrot séu framin daglega. Þá hefur þjófnaðartilvikum fjölgað um helming, úr 1.613 í 2.440, á fyrstu sex mánuðum ársins.

Á sama tímabili eru skráð umferðarlagabrot hjá lögreglu um tíu prósentum færri samanborið við sama tímabil í fyrra. Skráðum hraðakstursbrotum fækkar um 4,6 prósent, akstri gegn rauðu ljósi um þriðjung og ölvunarakstri um tæplega 29 prósent.

„Fjölgun brota er auðvitað áhyggjuefni," segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra. Starfsmenn dómsmálaráðuneytisins hafa ekki greint hvers vegna mikil aukning sé í sumum brotaflokkum en skráðum tilvikum fækki í öðrum. Því vilji hún ekki tjá sig um hvort þessar tölur endurspegli áhrif niðurskurðar undanfarið.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuð­borgarsvæðisins, segir að vissulega sé hægt að túlka þessar tölur þannig að almennt eftirlit lögreglu sé minna nú en áður.

Tölurnar megi þó einnig túlka þannig að áherslur lögreglu séu ekki endilega þær að ná sem flestum brotlegum ökumönnum. Eðlilegra sé að mæla árangur lögreglu af umferðareftirliti í til dæmis slysatölum.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×