Innlent

Á fjórða tug fiskvinnslufólks sagt upp

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Fiskverkunarfyrirtækið Tor ehf. í Hafnarfirði hefur ákveðið að segja upp 35 manns frá og með áramótum. Um er að ræða sérhæft fiskvinnslufólk. „Fyrirtækið mun ekki hætta en það er spurning hvort við förum í niður það að vera 6 til 8 manna fyrirtæki," segir Aðalsteinn Finsen, forstjóri Tor.

Aðalsteinn segir að ástæða uppsagnanna sé að frá því á haustmánuðum hafi fyrirtækið ekki getað fengið nægt hráefni á innlendum fiskmörkuðum til vinnslu. Miðað við óbreytt ástand sé því óumflýjanlegt að grípa til endurskipulagningar á starfseminni. Fyrirtækið hefur keypt allt sitt hráefni á innlendum fiskmörkuðum, um 3-4000 tonn á ári.

„Við vonum að þetta ástand sé tímabundið því fyrirtækið stendur vel fjárhagslega," segir Aðalsteinn. Fiskvinnslufólkið hefur verið í fullu starfi hjá Thor. Tæplega 70% starfsmannanna eru af erlendum uppruna, að sögn Aðalsteins.

Aðalsteinn segir það mikil vonbrigði að sjávarútvegsráðherra hafi fallið frá þeirri ákvörðun að afnema undanþágu erlendra fiskmarkaða til vigtunar á íslenskum fiski og vigta allan afla hér á landi. Verði ákvörðunin ekki endurskoðuð megi búast við að afli fari áfram óunninn úr landi og minna framboð verði á innlendum fiskmörkuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×