Erlent

Viðkvæmur sannleikur um Arctic Sea

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Arctic Sea. Sakleysislegt yfirbragð, en...
Arctic Sea. Sakleysislegt yfirbragð, en...

Rússneskur blaðamaður hefur flúið heimaland sitt eftir að hafa vakið athygli á hinu dularfulla máli flutningaskipsins Arctic Sea.

Það þótti í meira lagi dularfullt þegar Arctic Sea virtist hreinlega hverfa af yfirborði jarðar, eða sjávar öllu heldur, í þrjár vikur en dúkkaði svo upp aftur með sögu um innrás dularfullrar sérsveitar sem talaði bjagaða ensku og sagðist vera að leita að kókaíni.

Blaðamaðurinn Mikhail Voitenko telur sig vita betur. Hann segist þess fullviss að Arctic Sea hafi auk sakleysislegs timburfarms sem var á leið til Alsír flutt vopn til Mið-Austurlanda sem Rússar hafi verið að selja á laun. Eitthvað hefur sennilega verið til í þessu þar sem Voitenko fékk dularfullt símtal frá manni sem hann sagði hljóma eins og opinberan embættismann. Sá ráðlagði honum að forða sér áður en verra hlytist af og flaug Voitenko til Tyrklands þar sem breska blaðið Telegraph náði tali af honum.

Voitenko segist hafa komið við kaunin á valdamiklum aðilum sem stundi vopnasölu til Írans eða Sýrlands og sé sölumennskan að hluta á vegum opinberra aðila. Það hafi verið ísraelska leyniþjónustan Mossad sem ruddist um borð í skipið. Þetta stangast á við yfirlýsingar Rússa sem segja mennina hafa verið ótínda sjóræningja sem nú séu í fangelsi í Moskvu. Þegar Voitenko er spurður hvort hann muni snúa til Rússlands á ný svarar hann eingöngu: „Heldurðu að ég sé bjáni?"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×