Innlent

Atvinnulausir fá ekki greitt fyrir Verslunarmannahelgina

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. Mynd/Valli

„Þetta verður borgað út á fyrsta virka degi næsta mánaðar eins og segir í lögunum," segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, en atvinnulausir fá ekki greiddar út bætur fyrir Verslunarmannahelgina.

Það helgast af því að í lögum um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um tilhögun greiðslna atvinnuleysisbóta og kemur þar fram að bæturnar skulu greiddar fyrir undanfarandi mánuð fyrsta virkan dag hvers mánaðar.

Það merkir að atvinnulausir fá ekki greiddar bætur fyrir júlímánuð fyrr en þriðja ágúst, sem er mánudagurinn í næstu viku, þar eð fyrsti ágúst lendir á laugardegi.

Aðspurður hvort hann telji ekki leiðinlegt fyrir atvinnulausa að fá ekki greitt út fyrir helgina segir Gissur:

„Ég efast ekkert um það. Þetta gerist bara svona þessi mánaðarmótin og við verðum bara að halda okkur við þessa reglu."

Gissur segir greiðslustofu Vinnumálastofnunar hafa fengið fyrirspurnir vegna málsins og það hafi verið rætt, en ákveðið að fylgja því verklagi sem lagaramminn setur stofnuninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×