Lífið

Íslensk leikkona leggur Danmörk að fótum sér

Stefanía Ómarsdóttir hefur slegið í gegn sem hin níu ára gamla Asta í leikverkinu Seest en það byggir á flugeldaslysinu í Kolding árið 2004.
Stefanía Ómarsdóttir hefur slegið í gegn sem hin níu ára gamla Asta í leikverkinu Seest en það byggir á flugeldaslysinu í Kolding árið 2004.

Stefanía Ómarsdóttir hefur heillað Dani uppúr skónum sem hin níu ára gamla Ásta í verkinu Seest. Henni er spáð miklum frama í dönsku leikhúsi og hún var á forsíðu Berlingske Tidende um helgina þar sem henni er hælt við hvert reipi.

„Slá í gegn, tja, þetta hefur bara gengið mjög vel,“ segir Stefanía þegar Fréttablaðið náði tali af henni. Leikverkið Seest verður sett aftur upp strax eftir áramót og sýnt í bæði Kolding og Allerød eftir mikla velgengni í fyrra hjá Mungo Park-leikhúsinu. Sögusvið Seest er samnefndur smábær rétt fyrir utan Kolding og hið hræðilega flugeldaslys sem reið yfir íbúana árið 2004. Einn slökkviliðsmaður dó og 750 fjölskyldur misstu heimilið sitt í þessum harmleik og Stefanía útskýrir að rannsóknir hafi sýnt að börn á svæðinu þjáist mörg af áfallaröskun. Um það snúist leikritið. „Ég leik Ástu, hún er níu ára og er að safna saman brotum úr lífi sínu,“ segir Stefanía en danskir gagnrýnendur héldu vart vatni yfir frammistöðu Stefaníu á sviðinu og hún uppskar Reumert -verðlaun (hina dönsku Grímu) sem ein af björtustu vonum ársins. Berlingske gerði meira að segja heiðarlega tilraun til að eignast hlut í Stefaníu með því að kalla hana íslensk/danska en leikkonan segist hafa farið fram á það við blaðamanninn að hann leiðrétti það. Hún væri Íslendingur og ekkert annað.

Stefanía ætlaði sér þó aldrei að verða leikkona. „Nei, síður en svo. Mig langaði alltaf að verða læknir eða hjúkrunarkona,“ útskýrir hún en hún er Garðbæingur og bjó hér á landi til fjórtán ára aldurs, Þegar foreldrar hennar skildu flutti hún með mömmu sinni til Danmörku. Hún kom þó aftur heim og bjó hér í tvö ár áður en hún settist að í Danmörku nítján ára gömul.

Stefánía eignaðist sitt fyrsta barn það sama ár en það var svo fyrir algjöra tilviljun að hún fékk leiklistabakteríuna beint í æð. „Sofie Stougaard, virt leikkona hér útí, var með barn á sama leikskóla og ég. Hún bauð mér á sýningu og það var bara ást við fyrstu sýn,“ segir Stefanía sem reyndi síðan árið eftir við inntökuprófið í Leiklistarskólanum í Kaupmannahöfn. „Ég komst inn í fyrstu tilraun og útskrifaðist 2005.“ Stefanía viðurkennir að námið hafi verið erfitt og í viðtalinu við Berlingske kemur fram að hún hafi á köflum verið við það að gefast upp. Hún fékk því kærkomna hvíld eftir útskriftina og naut þess að vera heima með stelpunni sinni. Og svo eignaðist hún strák árið eftir útskrift sem nú er tveggja og hálfs. „Síðan hringdi leikstjórinn Moqi Simon Trolin í mig árið 2008 og bauð mér hlutverkið í þessari sýningu og ég ákvað bara að slá til,“ segir Stefanía en honum hafði hún kynnst innan veggja leiklistarskólans. Stefanía sér væntanlega ekki eftir því. Danska pressan hefur borið hana á gullstól síðan þá.

Stefanía er einstæð tveggja barna móðir en lætur það ekki aftra sér, segist bara verið hörkukvendi sem láti verkin tala. Vinnan krefst þess þó að allt sé skipulagt í þaula. „Strákurinn fær að gista hjá pabba sínum þegar ég er að leika og svo hefur stelpan mín bara komið með mér í vinnuna. Mamma hefur líka lagt sitt á vogarskálarnar.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.