Innlent

Ekki hægt að brenna dýrahræ

Sérstakur gámur til að brenna dýrahræ er ekki til í landinu og þurfti að urða hræ hrossa sem drápust af skæðri salmonellusýkingu í síðustu viku. Kaup á brennslugámi hafa staðið til í langan tíma.

23 hross, sem sýktust af salmonellu í beitarhólfi við Esjurætur rétt fyrir jól, eru dauð, fjögur eru ennþá veik, en 17 önnur hafa náð sér. Menn eru enn engu nær um hvaðan sýkingin barst í hrossin, þó er vitað að sú tegund salmonellu sem hér um ræðir er talin skæð, en hún nefnist Typhimurium. Þessi tegund kom þrisvar upp á síðasta ári - á jafnmörgum stöðum. Hræ hestanna hafa verið urðuð í Álfsnesi, en engin aðstaða er til að brenna þau. Urðun er þó sögð hættulaus.

20 milljónum var ráðstafað til kaupa á færanlegum brennslugámi þegar umræða um fuglaflensu stóð sem hæst og eftir að grunur vaknaði síðla árs 2007 um að jarðvegur á byggingarsvæði í Garðabæ væri sýktur miltisbrandi þar sem nautgripir höfðu löngu áður verið urðaðir. Milljónirnar rýrnuðu hins vegar í kjölfar efnahagshrunsins og því hefur enn ekkert orðið af kaupunum. Heppilegt hefði verið að hafa brennslugáminn til að fargra hræum salmonellusýktu hrossanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×